Fara í aðalefni.

Hótel í Washington

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Washington: Hótel og önnur gisting á frábærum kjörum

Washington er ein af undantekningum heimsborganna – höfuðborg sem fellur stundum í skuggann af öðrum og meira áberandi borgum í sama landi. En þótt hún búi ekki yfir sömu ljósadýrð og New York eða sama glamúr og Los Angeles þá er Washington stútfull af menningu. Þar má finna allt frá gríðarstórum og tilkomumiklum minnismerkjum yfir í litla, skrýtna og skemmtilega staði og allt er þetta auðvitað í næsta nágrenni helstu valdastóla Bandaríkjanna. Það er endalaust margt hægt að gera í Washington, versla, njóta fjölbreytts næturlífs og kanna mikið úrval veitingastaða af öllum stærðum og gerðum. En þar að auki eru tækifærin til að skoða og fræðast fjölbreytt yfir daginn. Ekki má heldur gleyma að skoða tiltölulega stórt hús ákveðins íbúa á Pennsylvania Avenue.

Áhugavert í nágrenninu

Hinn nýklassíski byggingarstíll Hvíta hússins er athyglisverður í sjálfu sér, en það fyrsta sem gestir velta fyrir sér þegar þangað er komið er kannski ekki ytra byrðið heldur það sem fram fer innandyra. Þarna hefur forseti Bandaríkjanna setið síðan 1800 og þótt það sé ekki í boði að banka upp á til að fá að rölta um gangana og ræða alþjóðamálin við starfsfólk er það alltaf stór hluti af heimsókn til Washington að komast nálægt þessari víðfrægu og mikilvægu byggingu. National Mall er svo í nágrenninu en þrátt fyrir nafnið er það mjög langt frá því að vera verslunarmiðstöð heldur gríðarstór þjóðgarður þar sem finna má fjöldann allan af minnisvörðum og öðrum vel þekktum kennileitum sem nauðsynlegt er að skoða nánar. Þar á meðal eru Lincoln minnisvarðinn, Washington minnismerkið og Constitution-garðurinn. Til að kafa svo enn dýpra í menninguna og fræðast í leiðinni býður Smithsonian-stofnunin upp á 19 söfn og gallerí þar sem sjá má allt frá vísindum og listum yfir í alþýðumenningu þjóðarinnar í gegnum tíðina.

Hótel í Washington

Þar sem svo margir af helstu áhrifamönnum heimsins heimsækja reglulega borgina hvort heldur í viðskipta- eða skemmtiferðum er ekki að undra að nóg er af háklassahótelum í Washington. Þar er úrval fimm stjörnu lúxushótela, hvort sem það eru hótel á vegum þekktustu hótelkeðja heimsins eða sjálfstæð hótel. Öll bjóða þau að sjálfsögðu fyrsta flokks aðstöðu með þráðlausu neti, flatskjám og hljómtækjum í herbergjum. Einnig má víða finna innilaugar, heilsulindir og líkamsræktaraðstöðu auk fundarherbergja og skrifstofuaðstöðu. En það eru ekki bara lúxushótel í Washington, þar má líka finna úrval hótela bæði í milliflokki og ódýrasta flokknum sem þjónusta fjölskyldufólk og viðskiptaferðalanga sem hafa ekki endalausa heimild á fyrirtækjakortinu sínu.

Hvar er gott að gista?

Eitt sinn var miðbærinn aðallega viðskiptamiðstöð Washington, en hin síðari ár hefur íbúum fjölgað talsvert á svæðinu auk þess sem það er orðið vinsælla meðal gesta, enda eru þeir þá í göngufjarlægð frá leikhúsum, börum og veitingastöðum auk helstu safna. Á svæðinu eru bæði raðhús og stórar skrifstofubyggingar, sem gefur miðbænum svolítið viðskiptalegan blæ en engu að síður er þar margt að sjá og gera. Dupont Circle skartar til að mynda bæði líflegu næturlífi og fjölda bókabúða og hefur yfir sér svolítinn bóhemskan anda. Capitol Hill er svo heldur ekki bara frægt fyrir minnismerkin, því þar má líka finna mikið úrval verslana en hafa þarf þó í huga að gisting á svæðinu er þó oft í dýrari kantinum.

Hvernig er best að komast til Washington?

Ronald Reagan alþjóðaflugvöllurinn er miðstöð flugs til Washington, en hann er staðsettur í Arlington. Það er einfalt og þægilegt að komast af flugvellinum til miðbæjarins með Metro – neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar, en hafa skal þó í huga að af öryggisástæðum er takmarkaður fjöldi flugferða til Reagan flugvallarins auk þess sem öryggiseftirlit um borð í flugvélum sem lenda á vellinum er talsvert meira en almennt gerist. Næsti valkostur er Dulles alþjóðaflugvöllurinn, sem staðsettur er í Virginíu, u.þ.b. 40 km frá miðbæ Washington. Neðanjarðarlestarkerfið gengur ekki þangað, en engu að síður er tiltölulega auðvelt og ódýrt að komast inn í borgina með Washington Flyer flutningsþjónustunni og tekur ferðin í hjarta miðborgarinnar um það bil 30 mínútur.

Hvenær er best að ferðast til Washington?

Það er stórbrotið að ferðast til Washington á vorin og sjá hin margfrægu kirsuberjatré blómstra bleikum blómum í National Mall garðinum. Að Cherry blossom hátíðinni undanskilinni, en hún nær hápunkti í lok mars og snemma í apríl, er vorið þó rólegheitatími í Washington og hentar þannig vel til að skoða söfnin og finna hótelherbergi á góðu verði. Þeir sem eru að leita að besta verðinu finna það hinsvegar á hinum snjóþungu vetrarmánuðum (að jólahátíðinni undanskilinni). Á sumrin blómstrar svo borgin öll í glampandi sólskini undir heiðbláum himni.

Hvað er nauðsynlegt að skoða í Washington?

Komdu við hjá hinu glæsilega Hvíta húsi, 18. aldar byggingu í nýklassískum byggingarstíl. Þar suður af trónir Washington-minnismerkið, há og oddhvöss súla úr marmara og granít sem reist var til heiðurs George Washington, fyrsta forseta Bandaríkjanna. Eftir stutta göngu til vesturs kemurðu að Lincoln minnistjörninni, stórri tjörn í skugga grísks hofs sem hýsir hina margfrægu styttu af Abraham Lincoln þar sem hann situr og horfir út yfir tjörnina og garðinn.

Hvað er best að borða í Washington og hvar er best að borða?

Í veitingastaðaflóru Washington má finna sitt lítið af hverju – allt frá ódýrum og einföldum skyndibita upp í fínustu veitingastaði. Ef þú vilt prófa ferskan og sterkan eþíópískan mat þá er best að halda í Shaw-hverfi Washington þar sem Litlu-Eþíópíu er að finna. Eins má í Columbia Heights finna fjölda rólegra veitingastaða sem bjóða pupusa-tortilla að hætti íbúa El Salvador. Georgetown skartar á hinn bóginn úrvali nútímalegra hádegis-bistróa í bland við fína evrópska veitingastaði. Í West End, East End og á lúxushótelum Washington má svo finna úrval veitingastaða í hæsta gæðaflokki.

Hvað er vinsælast að gera í Washington?

Mörg af vinsælustu söfnum Washington eru staðsett meðfram trjágöngum National Mall garðsins. Listhneigðir geta heimsótt Þjóðarlistagalleríið, National Gallery of Art, tilkomumikla nýklassíska byggingu sem hýsir endalaust úrval klassískrar myndlistar allt frá ítalska endurreisnartímabilinu til okkar tíma. Fjölskyldur ættu að leggja leið sína til Flug- og geimsafnsins, National Air and Space Museum, risastórra, braggalaga húsa sem hýsa eftirlíkingar af flugvélum og geimflaugum í fullri stærð. Ekki má heldur gleyma Náttúruminjasafninu, National Museum of Natural History, þar sem sjá má gríðarstórar risaeðlubeinagrindur og eftirmyndir dýra í fullri stærð.

Skemmtilegar staðreyndir um Washington

Eftir heimsóknina til Hvíta hússins er gaman að skoða styttuna af Andrew Jackson sem finna má rétt hjá, á Lafayette-torgi. Styttan sú er athyglisverð fyrir þær sakir að hún er smíðuð úr svörtum málmi sem unninn var úr breskum fallbyssum sem teknar voru í stríðinu við Breta árið 1812. Bókmenntaunnendur geta ekki látið Þingbókasafn Washington framhjá sér fara, gríðarstórt hús með bókahillur sem samtals eru vel yfir 1.300 km að lengd. Þegar Cherry Blossoms hátíðin stendur sem hæst er gott að minnast þess að kirsuberjatrén væru hvergi sjáanleg á svæðinu nema fyrir tilstilli hins japanska Yukio Ozaki, sem eitt sinn var borgarstjóri Tokyo, en hann gaf Washington trén árið 1912 sem vináttutákn.

Hvaða almenningssamgöngur eru í Washington?

Það er úr mörgu að velja þegar kemur að ódýrum og einföldum almenningssamgöngum í Washington. Þétt og áreiðanlegt strætisvagnakerfið skilar manni fljótt og örugglega á áfangastað hvort sem hann er í miðbænum eða úthverfum og það gerir líka neðanjarðarlestarkerfið, sem notar 6 litakóðaðar lestarlínur sem ganga frá því snemma á morgnana til miðnættis. Einnig má líka nýta D.C Circulator strætóana, sem sérhæfa sig í að flytja ferðafólk milli helstu kennileita og hverfa borgarinnar auk þess sem ekki má gleyma leigubílunum sem eru á hverju strái – sérstaklega í grennd við helstu hótel Washington.

Washington -Vegvísir og ferðaupplýsingar

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði