Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í San Francisco

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í San Francisco

Lífleg, litrík, upplífgandi og hressandi – lýsingarorðin flæða auðveldlega þegar maður hugsar um San Francisco, menningarstórborgina við Kyrrahafið. Þar ægir öllu saman og hvort sem það eru óháðar plötubúðir og kaffihús í Haight-Ashbury (sem var miðpunktur hippabyltingarinnar og er enn eitt af höfuðvígjum bóhemanna) eða pagóður besta og frægasta Kínahverfis í heimi, þá geta nær allir hlutar borgarinnar vakið innblástur og örvað skilningarvitin. Svo má ekki heldur gleyma höfninni bláu, þar sem hið alræmda Alcatraz-virki er ennþá einn af vinsælustu ferðamannastöðum Bandaríkjanna.

Áhugavert í San Francisco

Golden Gate brúin er án efa sterkasta tákn San Francisco. Í sólskininu logar þessi magnaða hengibrú fagurrauð (þótt í reynd sé hún frekar appelsínugul) þar sem hún spannar mynnið milli flóans og Kyrrahafsins og ber vitni þess stórfenglega verkfræðiafreks sem hún vissulega er. Viltu versla í borginni? Þá ætti Union Square að vera efst á listanum. Það er líflegt torg þar sem Dewey-minnismerkið trónir í miðjunni en allt í kring eru stórar deildaverslanir, flottar tískuverslanir, listagallerí og barir. Gestir flykkjast líka jafnan til Fisherman‘s Wharf, sem er risastór byggingasamstæða við höfnina þar sem m.a. má finna Pier 39. Þar eru yfir 100 verslanir, úrval veitingastaða og sædýrasafnið Aquarium of the Bay sem er þekkt fyrir ótrúleg neðansjávargöng þar sem gestir standa augliti til auglitis við hákarla, marglyttur og önnur stórfengleg sjávardýr. Hafið líka augun opin fyrir frægustu íbúum hafnarinnar, hinum síhressu sæljónum. Ef þú hefur einhvern tímann efast um að vegur gæti verið spennandi fyrir ferðafólk þá mun Lombard Street eyða öllum þeim efasemdum. Hann er svo brattur að bílar þurfa að sniglast niður hverja u-beygjuna á fætur annarri sem er í senn svolítið þokkafullt og líka súrrealískt.

Hótel í San Francisco

Þar sem borgin er ein af þeim líflegustu og vinsælustu í Bandaríkjunum er ekki að undra að mikið úrval hótela sé að finna í San Francisco. Þau eru mörg hundruð talsins og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Efst í verðstiganum eru íburðarmiklar borgarhallir sem bjóða allan þann lúxus sem hægt er að gera sér í hugarlund – marmarabaðherbergi, koddaseðil þar sem þú velur þann kodda sem hentar þér best, risasvalir með útsýni yfir flóann – og svo mætti lengi telja. Ef þú ert ekki alveg til í að kafa svo djúpt í veskið þarftu ekki að örvænta, því það er líka hægt að finna fullt af ódýrum hótelum í San Francisco.

Hvar er gott að gista í San Francisco?

Borgin er svo stór að það er ekki að undra að fólki fallist hendur þegar það hefur leitina að besta hótelinu í San Francisco. Þetta er þó ekki alveg vonlaust verkefni. Viðskiptaferðalangar geta t.d. byrjað leitina í fjármálahverfinu, þar sem skýjakljúfarnir (þar á meðal hinn frægi Transamerica píramíti) ráða ríkjum og fjölmörg fyrirtæki hafa bækistöðvar sínar. Þeir sem eru hins vegar að flýja daglega amstrið og vilja líf og fjör ættu að hefja leitina í kringum Union Square, þar sem finna má fjölda hótela innan um verslanirnar og veitingastaðina eða kannski prófa svæðið í kringum Fisherman‘s Wharf, þar sem oft má finna gistingu með stórfenglegt útsýni yfir flóann og hafið.

Hvernig er best að komast til San Francisco?

San Francisco alþjóðaflugvöllurinn er í aðeins 19 km fjarlægð frá miðborginni og það er einfalt að komast inn í borgina með BART(Bay Area Rapid Transit)-lestarkerfinu, en það gengur m.a. til flugvallarins. Einnig er hægt að komast til borgarinnar með því að fljúga á Oakland International Airport, en hann þjónustar aðallega innanlandsflug. Eftir að hafa lent þar er auðvelt að taka AirBART skutlurútuna til næstu BART stöðvar og síðan lestina inn í miðbæinn.

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði