Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Chicago

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Chicago

Sumir kalla hana borg vindanna, en aðrir hafa nefnt hana stóra laukinn. Hverju sem nafngiftunum líður er Chicago óumdeilanlega ein af stærstu og mest spennandi borgum Bandaríkjanna. Stórfengleg og glitrandi borgarmyndin með öllum sínum háhýsum sem speglast í Michigan-vatninu er vel þekkt úr óteljandi kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þessi höfuðborg miðvestursins er bæði heimili blústónlistar og mikilvægur þáttur í uppgangi djassins á sínum tíma og spilar enn stórt hlutverk í tónlistarmenningu Bandaríkjanna. Tónlistin er þó ekki það eina, því Chicago skartar líka leikhúsum, söfnum og listagalleríum á heimsmælikvarða auk þess sem verslun blómstrar í borginni og matarmenningin er fjölbreytt og getur hrifið jafnvel kröfuhörðustu bragðlauka.

Áhugavert í Chicago

Þeir sem leita að skemmtun fyrir alla fjölskylduna ættu að heimsækja Navy Pier, litríkt bryggjusvæði með fjölda leiktækja, verslana og annarra afþreyingarmöguleika. Þar er t.d. stórt parísarhjól sem gefur skemmtilegt sjónarhorn á borgarmyndina fyrir þá sem skella sér einn hring. Ef þú finnur skyndilega þörf á að létta á veskinu ættirðu að heimsækja hina frægu Magnificent Mile, aðalgötuna milli viðskiptahverfisins „The Loop“ og sögulega hverfisins „Gold Coast“. Þar standa í röðum fínustu verslanir, veitingahús og skemmtistaðir borgarinnar í skugga skýjakljúfa sem gefa sjálfri New York ekkert eftir. Til að slaka svolítið á en um leið eiga möguleika á að njóta ýmissa uppákoma er sniðugt að heimsækja aðalgarð Chicago, Grant Park. Þessi 130 hektara almenningsgarður er ekki einungis athvarf náttúruunnenda í stórborginni, heldur einnig vettvangur fjölbreyttra viðburða af ýmsu tagi. Þar spilar Millennium Park í norðvesturhorni garðsins jafnan stórt hlutverk, með hið stóra Jay Pritzker útisvið, nýstarlegar byggingar og skemmtilega hannað landslag sem gaman er að virða fyrir sér á göngunni um garðinn. Áhugafólk um bandarískar íþróttir vill án efa nýta tækifærið og skoða Wrigley Field, hafnaboltavöllinn sem hefur verið heimili hinna goðsagnakenndu Chicago Cubs síðan 1916.

Hótel í Chicago

Eins og búast má við af jafn vinsælum áfangastað eru fjölbreyttir valkostir í boði fyrir þá sem leita sér að gistingu. Lúxushótel í Chicago taka 5-stjörnu gistinguna alla leið eins og búast má við í landinu þar sem allt er stærra en annars staðar. Þegar gist er hjá einhverri af fínustu hótelkeðjunum í borginni geta þeir sem hafa nægilega djúpa vasa notið allsnægta á ríkulega búnu háhýsaherbergi með óviðjafnanlegu útsýni. Ef þú vilt halda örlítið fastar í aurinn er þó engin þörf á að örvænta, því nægt úrval er af hótelum í borginni sem mörg hver eru með fínustu aðstöðu og þjónustu á sanngjörnu verði. Eins er mögulegt að finna ódýr hótel í Chicago, en þau eru þá flest staðsett utan miðsvæðisins. Það ætti þó ekki að koma mikið að sök, því neðanjarðarlestarkerfið í Chicago sér um að koma gestunum auðveldlega þangað sem fjörið er.

Hvar er gott að gista í Chicago?

„The Loop“ er í senn miðborg Chicago og helsta viðskiptahverfi borgarinnar. Þar eru helstu háhýsin, borgarbúar sinna þar starfi og leik og margir helstu ferðamannastaðirnir eru á næsta leiti. Á The Loop eru verslanir, veitingastaðir, almenningsgarðar, söfn og fjörugt næturlíf á kvöldin auk þess sem leikhúsahverfi borgarinnar er hluti af svæðinu. Annað hverfi, sem kennt er við Lincoln Park, hefur yfir sér sérstakan Chicago-blæ og þykir mörgum gott að gista þar. Það þykir nýtískulegt og skartar mörgum vinsælum stöðum fyrir ferðafólk á borð við Lincoln Park dýragarðinn, Sögusafn Chicago og North Avenue ströndina. Eins þykir gott að gista við aðalverslunargötu Chicago, The Magnificent Mile, en þar eru mörg af glæsilegustu hótelum borgarinnar auk þess sem þaðan er auðvelt að komast í allar áttir.

Hvernig er best að komast til Chicago?

O’Hare alþjóðaflugvöllurinn er sá stærsti á svæðinu, en þangað koma flugvélar hvaðanæva að úr heiminum. Hann er rétt um 27 km norðvestur af miðbænum og það er létt verk og löðurmannlegt að komast beint inn á hótelið sitt í Chicago. CTA Blue Line lestin fer beint frá flugvellinum í miðbæinn á 15 mínútna fresti og tekur ferðin um það bil 45 mínútur. Ef lent er á Midway-flugvellinum, sem er nokkuð minni og er staðsettur suðvestur af miðborginni, er líka hægt að taka lest inn í borgina – þá er það Orange-línan sem sér um flutninginn. Eins er auðvelt að ferðast til Chicago með lest, því Amtrak lestarþjónustan gengur frá flestum helstu borgum Bandaríkjanna beint inn á Union-stöðina í Chicago.

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði