Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Liverpool

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Liverpool

Það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem Liverpool er hvað frægast fyrir – er það glæst tónlistarsagan, sigrarnir á knattspyrnuvellinum, staða borgarinnar í sjávarútvegi og siglingum eða tignarlegar byggingar á borð við Royal Liver bygginguna þar sem hinn goðsagnakenndi „Liver-fugl“ trónir á tveimur turnum? Að sjálfsögðu er borgin heimsþekkt sem fæðingarstaður Bítlanna, auk margra annarra hljómsveita sem gerðu garðinn frægan á vinsældarlistunum. Síðari ár hefur borgin svo jafnt og þétt getið sér betra orð sem ferðamannaborg þar sem sífellt fleiri heimsækja hina frægu Liverpool-höfn við glitrandi Mersey-ána, þar sem barir, veitingastaðir og söfn í heimsmælikvarða eru á hverju strái.

Áhugavert að sjá í Liverpool

Knattspyrnuáhugafólk getur að sjálfsögðu ekki látið hjá líða að heimsækja Anfield, heimavöll einhvers sögufrægasta og sigursælasta knattspyrnuliðs Bretlandseyja. Völlurinn, sem var fyrst notaður árið 1884, er án efa einn helsti hornsteinn knattspyrnusögunnar og þar fyrir utan er m.a. vinsælt að skoða bronsstyttuna af einum frægasta þjálfara liðsins, Bill Shankly. Vinsælt er að fara á Anfield-safnið, þar sem m.a. má líta Evrópubikarinn sem Liverpool hefur unnið alls fimm sinnum, oftast enskra félagsliða. En ef tónlistin heillar þig meira ættirðu að fara beint á Beatles Story-safnið, þar sem kafað er djúpt í sögu þessarar merku hljómsveitar, m.a. með því að setja upp eftirlíkingu af Cavern Club (þar sem Bítlarnir náðu fyrst eyrum sveitunga sinna), sýna úrval sjaldgæfra ljósmynda úr sögu hljómsveitarinnar og beita ýmsum margmiðlunarbrögðum til að gera umfjöllunarefnið lifandi. Safnið er á Albert Dock, þar sem einnig má finna Tate Liverpool safnið, söguleg vernduð vöruhús og mikið úrval spennandi veitingastaða með frábært útsýni yfir ána. Svo er hægt að fara á sýningar hjá vinsælu tónlistarfólki og grínistum í Echo Arena auk þess sem Aintree kappreiðavöllurinn er heimili hinna sögufrægu Grand National kappreiða, sem haldnar eru ár hvert.

Hótel í Liverpool

Eins og búast má við af einni vinsælustu borg Englands þá geturðu fundið hótel í öllum verðflokkum í Liverpool. Stóru keðjurnar eru að sjálfsögðu á svæðinu, í sínum stóru byggingum með sundlaugum, líkamsræktarstöðvum sem eru opnar allan sólarhringinn, heilsulindum og heitum pottum. Slík hótel henta vel fjölskyldum og viðskiptaferðalöngum, en þeir sem vilja ferðast aðeins ódýrar geta fundið ódýrari gistingu af ýmsu tagi bæði í miðbænum og allt í kring. Pör og þeir sem vilja svolítið öðruvísi gistingu ættu svo að íhuga eitthvað af mörgum „boutique“ hótelum sem finna má í Liverpool, en mörg þeirra eru einstaklega sjarmerandi og skemmtileg.

Hvar er gott að gista í Liverpool?

Fyrir gesti sem vilja skoða Liverpool hentar sennilega best að gista í miðbæjarkjarnanum. Þar eru mörg helstu kennileiti borgarinnar í göngufjarlægð og má þar t.d. nefna St. George‘s Hall (sem er ein mikilfenglegasta nýklassíska bygging Evrópu) og Liverpool dómkirkjuna (fimmtu stærstu kirkju heims). Stutt er einnig að ganga að hafnarsvæðinu og Albert Dock. Ef sveitalífið heillar þig meira þá gætirðu fundið skemmtilega gistimöguleika á Wirral-skaganum, sem skartar grófgerðri strönd og rólegum þorpum. Eins gæti Southport verið góður kostur, en það er hinn dæmigerði enski strandorlofsstaður, með gullna sanda, lífleg skemmtistaðahverfi og fjölda golfvalla.

Hvernig er best að komast til Liverpool?

Liverpool John Lennon flugvöllurinn er einn helsti alþjóðlegi inngangurinn að borginni, en þangað er flogið frá fjölmörgum flugvöllum í Evrópu. Þaðan er stutt að fara í miðbæ Liverpool með leigubíl eða rútu. Flestir Íslendingar sem heimsækja Liverpool lenda þó sennilega á Manchester-alþjóðaflugvellinum, sem er í um það bil klukkustundar akstursfjarlægð. Þeir sem koma frá Írlandi eða eyjunni Mön geta tekið hina frægu ferju yfir Mersey-ána og svo er auðvitað hægt að koma með lest til Lime Street stöðvarinnar frá mörgum af helstu borgum Bretlandseyja, svo sem London, Manchester og Leeds.

Hvenær er best að ferðast til Liverpool?

Skemmtilegast er sennilega að kynna sér það helsta sem Liverpool hefur upp á að bjóða á sumrin, þegar ágætlega hlýtt er í borginni og götulistamenn, tónlistar- og listafólk taka yfir göngugöturnar og matarhátíðir spretta upp víðsvegar um borgina. Hin líflega Mersey River hátíð fer t.a.m. fram í júní, en það er fjölskylduvæn skemmtun sem er haldin við höfnina. Á veturna er samt engin ládeyða, því götumarkaðir af ýmsu tagi eru starfræktir í miðbænum og að sjálfsögðu minnkar ekkert stemmningin á pöbbunum. Þeir sem vilja fá ódýr hótel í Liverpool eiga sennilega best með að finna þau á haustin eða vorin, þegar örlítið rólegra er í skemmtanalífinu.

Hvað er mest spennandi að skoða í Liverpool?

Liverpool Metropolitan dómkirkjan í miðbæ borgarinnar hefur ávallt verið vinsæl hjá áhugafólki um byggingarlist. Þessi sérkennilega bygging frá 1960 er í senn nútímaleg og „brútal“, þar sem steinsteypukeila aðalbyggingarinnar rís upp í nokkurs konar turnkórónu með margbrotnum steindum gluggum. Algjöra andstæðu Metropolitan dómkirkjunnar má svo finna í hinni margfrægu Liverpool dómkirkju, sem er gríðarstór, hefðbundin kirkja í gotneskum stíl. Í miðbænum má svo ekki láta St. George‘s Hall framhjá sér fara, en það er klassísk bygging með rómverskum rismyndum og tilkomumiklum súlnagöngum.

Hvað og hvar er best að borða í Liverpool?

Matargerð í Liverpool hefur fleytt fram síðustu áratugi og nú má finna þar allt frá nútímalegum bistró-veitingastöðum yfir í gamaldags kráarveitingastaði. Í miðbænum úir og grúir af indverskum karríveitingastöðum, kráarveitingastöðum og evrópskum veitingastöðum svo eitthvað sé nefnt. Í Liverpool One verslunar- og afþreyingarmiðstöðinni, sem einnig er í miðbænum, má svo finna keðjuveitingastaði í miklu úrvali. Þeir sem vilja snæða á vínbörum, flottum kaffihúsum eða óháðum fusion-veitingastöðum ættu svo að fá eitthvað fyrir sinn snúð á Lark Lane. Svo má heldur ekki gleyma því að mörg af helstu lúxushótelunum í Liverpool starfrækja úrvalsveitingastaði af fínna taginu.

Hvað er skemmtilegast að gera í Liverpool?

Tónlistaráhugafólk hreinlega getur ekki látið Bítlasafnið, The Beatles Story, fram hjá sér fara. Það er staðsett í einu af mörgum sjarmerandi múrsteinsvöruhúsunum við höfnina og segir sögu þessarar mögnuðu hljómsveitar, allt frá fyrstu árunum í Liverpool til heimsfrægðar. Annað merkilegt safn, Liverpool-safnið, er hýst í nútímalegri, fleyglaga byggingu við höfnina þar sem saga borgarinnar og svæðisins er sögð. Listunnendur geta síðan lagt leið sína í Walker-listagalleríið, þar sem sjá má fjölmörg meistaraverk úr evrópskri listasögu.

Áhugaverðar staðreyndir um Liverpool

Þar sem Liverpool hefur í gegnum tíðina verið ein helsta hafnarborg Bretlandseyja hefur hún ávallt haft yfir sér alþjóðlegan blæ. Sem dæmi státar borgin af því að þar megi finna elsta kínverska samfélagið í Evrópu. Höfnin hefur líka löngum verið uppspretta allsnægta í borginni – á ákveðnum tímum á 19. öldinni var Liverpool til að mynda auðugri en London. Íbúar borgarinnar eru kallaðir ýmsum nöfnum – t.d. „Liverpudlians“, en sennilega er „scousers“ þekktasta viðurnefni Liverpool-búa. Þetta viðurnefni er komið af ódýrri kjötkássu, „scouse“ sem var á tímabili vinsæl hjá verkafólki í Liverpool. Orðið „scouse“ er jafnframt notað um hinn sterka og sérkennilega hreim sem einkennir talanda Liverpool-búa.

Hvers konar almenningssamgöngur eru í Liverpool?

Liverpool er með þéttriðið og einfalt almenningssamgöngukerfi sem samanstendur af strætisvögnum og léttlestum. Strætisvagnarnir, sem reknir eru af Stagecoach Merseyside og Arriva North West, ganga um alla borg og í úthverfin og ættu þeir sem hyggjast fara fleiri en eina ferð á dag að kaupa dagpassa til að spara í fargjöldum. Liverpool Merseyrail er síðan lítið en hentugt neðan- og ofanjarðarlestarkerfi sem veitir skjótan og auðveldan aðgang að ýmsum hverfum borgarinnar. Svo er auðvitað fjöldi leigubíla í borginni sem auðvelt er að nýta til að skjótast milli staða.

Liverpool -Vegvísir og ferðaupplýsingar

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði