Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Feneyjum

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Feneyjium

Feneyjar. Orðið eitt og sér hefur yfir sér kynngimagnaðan blæ. Samstundis birtist í huga manns mynd af bugðóttum síkjum, tignarlegum byggingum og gondólum sem mjakast undir bogadregnar steinbrýr. Sem betur fer standa Feneyjar undir flestum þeim rómantísku væntingum sem við berum til borgarinnar. Það er í alvörunni ekki nein til önnur borg í líkingu við Feneyjar neins staðar í heiminum, þar sem stórfenglegar byggingar í endurreisnar-, barrokk- og gotneskum stíl rísa upp úr síkjunum. Þegar við bætist stórfengleiki aðalsíkisins, Canal Grande og hið magnaða Ca'Rezzonico safn er alveg ljóst að Feneyjar eru einstakar heim að sækja.

Áhugavert að sjá í Feneyjum

Markúsartorg, Piazza San Marco, er hjarta Feneyja. Það er stórt en samt notalegt, kannski vegna allra kaffihúsanna og baranna þar sem hægt er að setjast niður og njóta mannlífsins. Auk þess að fylgjast með fólkinu má þar líka sjá þekkt kennileiti á borð við hið vængjaða Feneyjarljón sem gnæfir yfir á hárri súlu, Campanile klukkuturninn og að sjálfsögðu basilíku heilags Markúsar. Það er án efa ein af glæsilegustu kirkjum veraldar, með sínum stórfenglegu hvelfingum og glæsilegu skreytingum og listaverkum þegar inn er komið. Annars staðar í Feneyjum má svo finna hina bogadregnu og myndrænu Rialto-brú sem setur svo vel mark sitt á Canal Grande og Brú andvarpanna, sem er skorin út úr hvítum kalksteini. Sagan segir að ef elskendur kyssist undir henni við sólsetur muni þeir öðlast endalausa hamingju. Svo er það Lido-hverfið, sem er glamúr-hluti borgarinnar, en það skartar hvítum ströndum og tignarlegum hótelum og er sennilegast þekktast fyrir að þar sé Kvikmyndahátíðin í Feneyjum haldin ár hvert, en hún þykir ein af þremur helstu kvikmyndahátíðum Evrópu.

Hótel í Feneyjum

Eins og búast má við af jafn vel þekktri og vinsælli borg og Feneyjum er enginn skortur á hótelum í borginni. Mörg þeirra eru vissulega í dýrari kantinum, en flestum finnst það vel þess virði enda fá þeir í staðinn ógleymanlegan gististað, útsýni yfir síkin, góða veitingastaði á hótelunum sem bjóða sjávarrétti úr ferskasta hráefni og ýmis nútímaþægindi á borð við ókeypis þráðlaust internet. Að sjálfsögðu er líka hægt að finna ódýr hótel í Feneyjum – til að gera það er gott að nýta vefleitartólin til að sía eftir verði.

Hvar er gott að gista í Feneyjum?

Svæðið í kringum Markúsartorg er segull fyrir ferðafólk og það er ekki ofsögum sagt að ef þú vilt fá Feneyjastemmninguna beint í æð þá er fyrsta skrefið að bóka hótel í nágrenni torgsins. En að sjálfsögðu hafa önnur hverfi líka marga góða kosti fram að færa. Cannaregio hverfið, svo dæmi sé tekið, er rétt eins töfrandi en það er staðsett þar sem gyðingagettó Feneyja stóð eitt sinn. Þeir sem vilja fá sem mesta lúxusinn ættu svo að skoða Lido-hverfið, en á lúxushótelunum þar fá gestir oft aðgang að einkaströndunum þar sem Hollywood-stjörnurnar sóla sig á meðan á kvikmyndahátíðinni stendur.

Hvernig er best að komast til Feneyja?

Fyrir gesti sem koma með flugi erlendis frá eru tvær leiðir helstar til Feneyja. Önnur þeirra er Marco Polo flugvöllurinn, sem er einungis nokkrum kílómetrum frá borginni og tekur á móti flugvélum frá fjölmörgum borgum víðsvegar í Evrópu. Þaðan er hægt að komast inn til Feneyja með vatnataxa eða almenningsbátum. Hin leiðin er að fljúga til Treviso flugvallar, en mörg lággjaldaflugfélög bjóða upp á flug þangað. Ókosturinn er að hann er svolítið lengra frá borginni. Svo má einnig koma til borgarinnar með lest, en Venezia Mestre lestarstöðin er síðasta lestarstöðin á meginlandinu áður en lestirnar renna inn á endastöðina á Venezia Santa Lucia, mitt á milli gamalla bygginga og síkja í gamla bæ Feneyja.

Hvenær er best að ferðast til Feneyja?

Veturinn hljómar kannski ekki eins og skynsamlegasti tíminn til að heimsækja þessa mögnuðu síkjaborg, en þeir sem það gera geta stílað inn á að vera á þeim tíma sem Feneyjakarnivalið fer fram. Þá eru haldnir grímudansleikir um alla borg þar sem þátttakendur klæða sig upp í gyllta sloppa og setja upp klassískar Feneyjagrímur. Sumrin eru hins vegar háannatími ferðalaga til Feneyja, en þá er mjög heitt í veðri og borgarbragurinn með líflegasta móti. Mögulega eru þó þægilegustu tímarnir á vorin og haustin, en þá er ekki alveg eins heitt, örlítið minna um ferðafólk og hótelverðið örlítið lægra.

Hvað og hvar er best að borða í Feneyjum?

Baccala mantecato, saltaður þorskur í stöppu sem blönduð er með ólífuolíu, er eitt helsta lostæti Feneyja. Einnig er svart smokkfiskrisotto mikið hnossgæti og þótt maður fái örlítinn lit á varirnar við að gæða sér á því er það vel þess virði. Sælkerar ættu að leggja það á sig að fara út fyrir helsta ferðamannamiðbæinn og leita uppi hina hefðbundnu vínbari, bacari, en þeir bjóða upp á cicheti, sem eru gómsætir smáréttir í ætt við tapas. Einnig er vel þess virði að heimsækja Dorsoduro-hverfið, þar sem finna má fjölmarga litla veitingastaði sem þjónusta bæði heimamenn og ferðafólk sem veit hvar það á að leita.

Hvað er mest spennandi að gera í Feneyjum?

Peggy Guggenheim Collection er eitt helsta safn 20. aldar listar í allri Evrópu. Það er starfrækt í höllinni sem var eitt sinn heimili Peggyar, sem var auðugur erfingi Guggenheim-ættarinnar og merkur listaverkasafnari, og hýsir safnið meðal annars meistaraverk eftir marga af mestu listamönnum listasögunnar á borð við Max Ernst, Marcel Duchamp og Salvador Dali. Eins er vel þess virði að fara með báti út í Murano-eyju til að skoða hin margfrægu glerlistaverk eyjunnar í Murano glerlistasafninu. Ef þú vilt svo slaka vel á í sólinni eftir safnaheimsóknirnar eru sandstrendur Lido-hverfisins besti staðurinn, en þar halda fræga fólkið og heldri borgarar Feneyja jafnan til.

Áhugaverðar staðreyndir um Feneyjar

Feneyjar voru fæðingarstaður hins alræmda ástmögurs og ævintýramanns Casanova og tónskáldsins Vivaldi. Feneyjar eru þekktar fyrir Bellini, sem er heimsþekktur kokkteill sem er blandaður úr freyðivíni og ferskjumauki, en hann fékk nafn sitt vegna þess að bleiki litur kokkteilsins minnti skapara hans á bleikan kyrtil í málverki eftir endurreisnarlistamanninn Giovanni Bellini. Feneyjar voru einnig upphafsstaður réttarins „nauta-carpaccio“, en sagan segir að hann hafi verið búinn til í skyndi til að þóknast greifynju sem var á matarkúr sem innihélt eingöngu hrátt kjöt.

Hvers konar almenningssamgöngur eru í Feneyjum?

Feneyjar eru sennilega ein þægilegasta borg í heimi fyrir gangandi vegfarendur og meira að segja þeim sem týnast þar finnst skemmtilegt að finna aftur réttu leiðina. Að því sögðu lenda sjálfsagt flestir í því einhvern tímann að þurfa að komast eitthvert í skyndi og þá koma vatnataxarnir (vaporetti) oft að góðum notum. Canal Grande skartar eigin vatnatöxum, sem þvera síkið allan daginn, en þeir rómantísku kjósa kannski frekar að fara í hefðbundna og afslappandi gondólasiglingu.

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði