Fara í aðalefni.

Hótel í Mílanó

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Mílanó: Hótel og önnur gisting á frábærum kjörum

Flestir þekkja sennilega Mílanó sem eina af helstu tískuhöfuðborgum heimsins, en hún er líka svo miklu meira en það. Í Mílanó finnurðu hina fullkomnu blöndu sögulegrar byggingarlistar og lystisemda nútímalífsins. Hún er í senn viðskiptamiðstöð og kraumandi suðupottur menningar af öllu tagi þar sem gestir finna blómleg verslunarhverfi, veitingahús í hæsta klassa, afþreyingu í sérflokki og næturlíf sem er með því besta sem gerist í Evrópu. Þegar við bætist ógrynni sögustaða og kennileita er ekki nema von að borgin laði til sín mikinn fjölda áhugasamra borgarferðalanga. Tvisvar á ári hópast svo espresso-hlaðnir tískuboltar í pílagrímsferðir til borgarinnar þegar tískuvika Mílanó er haldin.

Áhugavert í nágrenninu

Dómkirkjutorgið, Piazza del Duomo, er hið tilkomumikla miðborgartorg Mílanó, umkringt nýklassískum byggingum á borð við Carminati-höllina og konungshöllina í Mílanó. Við torgið er jafnframt gimsteinninn í byggingarlist borgarinnar, dómkirkjan í Mílanó, Duomo di Milano. Hún er byggð í gotneskum stíl og efst í mikilfenglegum turnum hennar trónir gullin stytta af Maríu guðsmóður. Það tók næstum sex aldir að klára þessa mögnuðu byggingu, sem er fimmta stærsta dómkirkja heims. Þeir sem vilja versla fá varla betra tækifæri til þess en í Galleria Vittorio Emanuele II. Þessi einstaka verslunarmiðstöð tengir saman Dómkirkjutorgið og Scala torgið (Piazza della Scala) og má þar finna úrval kaffihúsa, veitingastaða og háklassa fata- og skartgripaverslana. Mekka listunnenda, Scala óperuhúsið, stendur svo við Scala torgið, en þar eru settar upp óperu- og ballettsýningar sem þykja með því fremsta sem gerist á heimsvísu. Ballett af allt öðru tagi, en ekki síður vinsæll, er svo reglulega fluttur á San Siro-knattspyrnuvellinum, sem er heimavöllur hinna vel þekktu knattspyrnuliða AC Milan og Inter Milan. Þangað getur knattspyrnuáhugafólk farið í heimsókn, hvort heldur er til að fara á leik eða í skoðunarferð um völlinn.

Hótel í Mílanó

Eins og má búast af miðstöð ríkasta og áhrifamesta tískuáhugafólks í heimi skartar Mílanó miklu úrvali háklassahótela. Lúxusinn hreinlega lekur af veggjunum á ofursvölum boutique-hótelum og mínímalískum nýaldarhótelum og þar fá gestir alla þá þjónustu sem hugurinn girnist. Í miðverðflokknum er aðeins búið að skrúfa niður glamúrinn, en oft boðið upp á ókeypis þráðlaust net, flatskjái, te- og kaffivélar og annað slíkt, sem gerir þau hentugan valkost fyrir viðskiptaferðalanga og fjölskyldur.

Hvar er gott að gista?

Hótel á Duomo- og miðborgarsvæðinu eru, eins og gefur að skilja, í hjarta borgarinnar, nærri öllum helstu kennileitum, verslunum og veitingastöðum. Örlítið norðar, í Brera hverfinu, má finna flotta bari og spennandi listagallerí. Norðausturhverfi borgarinnar, Corso Buenos Aires, er tilvalið fyrir þá sem vilja versla mikið, en þar má finna yfir 350 verslanir. Þeir sem vilja reyna að spara aurinn geta fundið ódýr hótel í Mílanó á Stazione Centrale svæðinu, sem einnig er norðan miðborgarinnar. Þar er aðallestarstöð borgarinnar og því auðvelt að komast hvert sem er með neðanjarðarlestakerfinu.

Hvernig er best að komast til Mílanó?

Mílanó er með tvo aðalflugvelli, Malpensa alþjóðaflugvöllinn, og hinn smærri Linate flugvöll. Sá fyrrnefndi er fyrsti viðkomustaður flestra sem eru á leið til borgarinnar erlendis frá. Þaðan er hægt að komast í miðborg Mílanó með lestum sem fara beint frá flugstöð 1 á Malpensa og stoppa á Milano Cadorna og aðallestarstöðinni Milano Centrale. Ferðalög til aðallestarstöðvarinnar taka venjulega á bilinu 40 mínútur til klukkustund eftir því hve mörg stopp eru á leiðinni. Þaðan er svo hægt að fara út um alla borg með neðanjarðarlestunum. Reglulegar rútuferðir eru einnig bæði frá Malpensa og Linate til miðborgarinnar og taka þær að jafnaði um klukkustund.

Hvenær er best að ferðast til Mílanó?

Á vorin og haustin er tilvalið að ferðast til Mílanó. Þá er oftast notalega heitt og þurrt, auk þess sem allir fara í sparifötin þegar tískuvikan er haldin í febrúar og október. Vorið er jafnframt tími hátíða, en þá kunngera kirkjur kraftaverk og stórfenglegar skrúðgöngur hlykkjast um götur borgarinnar. Heitt er í júlí og ágúst auk þess sem ferðafólk fjölmennir í borgina, en yfir háveturinn má búast við snjó og kulda. Þeir sem setja það ekki fyrir sig geta hins vegar orðið vitni að því þegar ljósin eru tendruð á jólatrénu við dómkirkjuna, sem þykir með hátíðlegustu stundum ársins í Mílanó.

Hvað er nauðsynlegt að skoða í Mílanó?

Það er ekki hægt annað en að taka eftir dómkirkjunni í Mílanó, sem skartar hundruðum turnspíra og þúsundum fíngerðra stytta. Innandyra er svo litað glerið í gluggunum ekki síður stórfenglegt. Önnur kirkja, Santa Maria delle Grazie, státar hins vegar af enn tilkomumeira meistaraverki - Síðustu kvöldmáltíðinni, einu helsta listaverki Leonardo Da Vinci. Mikil aðsókn er að kirkjunni vegna þess og skynsamlegt að panta miða áður en komið er. Svo má ekki gleyma Scala torginu þar sem gaman er að rölta um og virða fyrir sér skreytingar í endurreisnarstíl og nýklassískan glamúr nokkurra af helstu lúxushótelum Mílanóborgar

Hvað er best að borða í Mílanó og hvar er best að borða?

Matarmenningin í Mílanó er í raun ekki ósvipuð því sem gengur og gerist í tískuheiminum þar í borg – hún einkennist af stöðugum nýjungum, straumum og stefnum, en þó aldrei þannig að klassa og hefðum Mílanóborgar sé fórnað. Í Brera, sögufrægu og miðlægu hverfi í Mílanó, má fá bestu „panzerotti“ í bænum, en það eru fylltar deigbollur, auk þess sem klassískir réttir á borð við saffron risottó svíkja ekki. Í tískuhverfinu, sem liggur frá Corso Vittorio Emmanuelle II til Corso Buenos Aires, má finna heitustu veitingastaði bæjarins og úrval flottra smáréttabara. Þegar þú vilt breyta til og finna eitthvað annað en ítalskt er ekki úr vegi að bregða sér í Sarpi, Kínahverfi Mílanó, þar sem er úrval asískra veitingastaða.

Hvað er vinsælast að gera í Mílanó?

Í Mílanó er óendanlegt úrval stórfenglegrar listar – en ef þú hefur bara tíma til að fara í eitt listasafn í borginni ætti það að vera Pinacoteca di Brera. Meðal helstu fjársjóða safnsins eru meistaraverk eftir Caravaggio og Raphael. Ef þú vilt versla er Galleria Vittorio Emmanuelle II miðdepill tískunnar, þar sem lúxushönnunarbúðir standa í löngum röðum undir glerþaki marmaraklæddrar verslunarmiðstöðvarinnar. Menningin lifir svo góðu lífi í Scala-óperunni en oft er hægt að fá samdægursmiða á sýningar þessa goðsagnakennda óperuhúss með ágætum afslætti.

Skemmtilegar staðreyndir um Mílanó

Dómkirkjan lítur vissulega út fyrir að vera gömul, en byggingu hennar lauk þó ekki fyrr en árið 1965, 600 árum eftir að bygging hennar hófst. Það þýðir að sumir af hinum nútímalegu skýjaklúfum borgarinnar eru eldri en fullkláruð dómkirkjan. Mílanó er reyndar oft kölluð „Nýja Ítalía“ enda eru þar fleiri skýjakljúfar og haldnar fleiri viðskiptaráðstefnur en í nokkurri annarri borg í Ítalíu. „Aperitivo“ er vinsæll þáttur í matarmenningu borgarinnar, en það er hamingjustund (happy hour) með smáréttum. Innfæddir flykkjast á hverfisbarina um kl. 19:00 þar sem smáréttahlaðborð er í boði ásamt drykkjum í um það bil klukkustund áður en hinn hefðbundni kvöldverðartími hefst.

Hvaða almenningssamgöngur eru í Mílanó?

Það er einfalt að ferðast um Mílanó vegna hins vel tengda almenningssamgöngukerfis borgarinnar, sem samanstendur af neðanjarðarlestum, strætóum og sporvögnum sem flytja mann hvert sem er innan borgarinnar. Úrval miða er í boði, þar á meðal dagsmiðar, tveggja sólarhringa miðar og 10-miða búnt þar sem 1 miði gildir fyrir allar tegundir almenningssamgangna. Gömlu sporvagnarnir eru sérstaklega skemmtilegir og koma manni fljótt og vel um miðbæinn þótt neðanjarðarlestirnar séu sennilega auðveldasti ferðamátinn fyrir þá sem eru að koma til borgarinnar í fyrsta sinn. Þeir sem vilja vera sérstaklega umhverfisvænir í ferðamáta geta svo nýtt sér BikeMi-kerfi borgarinnar, en það eru hjól sem finna má víða um borg og leigja með sjálfsafgreiðslu.

Mílanó -Vegvísir og ferðaupplýsingar

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði