Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Marrakess

Finndu hótel í Marrakess

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Marrakess

Hin vel varðveitta nýlenduborg Marrakess, sem er þriðja stærsta borg Marokkó, er dásamleg blanda af gamla og nýja tímanum. Brúnleitar byggingarnar og iðandi göturnar skapa frjósaman jarðveg fyrir endalaust úrval markaða og götusala sem bjóða allt frá smæsta glingri til lystilega ofinna teppa auk þess sem matarmenningu Marokkó eru gerð góð skil á hverju götuhorni. Í gömlu borginni Medína skynjar maður svo söguna og menninguna á hverju götuhorni, auk þess sem víða má finna falleg opin svæði og garða þar sem allir geta notið náttúrunnar og loftslagsins.

Hvað er áhugavert í Marrakess

Ef þú ert að skipuleggja heimsókn til Marrakess þá liggur beint við að taka gott rölt um hin líflegu húsasund og öngstræti Medínu, gömlu borgarinnar, og skoða Souks-markaðina þar. En ekki síður er nauðsynlegt að gefa sér tíma á hinu stóra og opna Djemaa El-Fna torgi, bæði til að virða fyrir sér iðandi mannlífið og skoða varninginn sem þar er til sölu. Það er töfrum líkast að vera þar við blóðrautt sólarlagið þegar blandast saman mal sagnaþulanna og tónlist götuspilaranna og eins er það einstök upplifun að vera þar yfir eftirmiðdaginn þegar götusalarnir kalla hver í kapp við annan í hlýju miðjarðarloftslaginu. Eftir lífið og fjörið á mörkuðunum er svo gott að ná sér niður með heimsókn í Marrakesh-safnið. Það hýsir mikið magn allskyns áhugaverðra muna sem gefa gott yfirlit yfir sögu þjóðarinnar, en það er ekki síður gaman að skoða bygginguna sjálfa, sem var upphaflega höll sem byggð var á 18. öld. Til að ná sér enn meira niður má svo taka gott rölt um Menara-garðana og virða fyrir sér mannlífið við tjörnina þar.

Hótel í Marrkess

Það er óhætt að segja að nægt úrval sé af hótelum í Marrakess. Þar finnur þú allar stærðir og gerðir af gistingu, allt frá ódýrum hótelum til lúxushótela þar sem hvergi er til sparað í íburðinum. Þannig að hvort sem þú vilt spara aurinn við kaup á gistingu og nýta hann frekar á mörkuðunum eða lifa eins og kóngur þá áttu kost á því í Marrakess. Meira að segja boutique-hótelin eru mörg hver með fjölbreytta aðstöðu á borð við sundlaugar og bari, þannig að auðvelt er að fríska upp á sig í hitanum auk þess sem flest hótelanna á svæðinu bjóða upp á ókeypis háhraðanet í almannarýmum. Sum þeirra bjóða jafnvel upp á ókeypis morgunverð sem hægt er að snæða á þakveröndinni á meðan sólin hitar borgina með fyrstu geislum sínum – er hægt að biðja um eitthvað meira?

Hvar er gott að gista í Marrakess?

Ef þú ert að leita að hagkvæmri en jafnframt góðri gistingu með auðveldu aðgengi að áhugaverðustu stöðum borgarinnar þá er hægt að finna fjölda Ryad-gistihúsa á Moolay Mousa-svæðinu og þar í kring. Sérstaklega hentar slík gisting vel fyrir pör og þá sem ferðast einir. Ef þú vilt fá sem mesta nánd við sögu og menningu Marrakess þá jafnast fátt á við að gista í eða í kringum gömlu borgina Medína og vera þá um leið stutt frá mörkuðunum og Djemaa El-Fna torginu. Þeir sem vilja vera í svolítið rólegra umhverfi gætu svo leitað að gistingu á Hivernage-svæðinu, sem er nálægt nokkrum friðsælum görðum.

Hvernig er best að komast til Marrakess?

Marrakess-Menarah flugvöllurinn er tengdur flestum af helstu borgum veraldar og er einungis í 5 km fjarlægð frá miðborginni. Til að komast á hótelið er oft best að taka smáleigubíl, „petit taxi“, því þeir eiga gott með að aka um miðborgina og kosta oftast svolítið minna en venjulegir leigubílar. Þeir sem eru þegar komnir til landsins geta svo auðveldlega komist á Avenue Hassan II lestarstöðina með lest frá Tangier, Casablanca og Rabat, en frá þessum borgum tekur ferðin um það bil 2 klst. Í borginni sjálfri er svo úrval strætisvagnaleiða og smáleigubíla þannig að þú ættir ekki að vera í erfiðleikum með að komast milli staða – en ef þú ert í gömlu borginni kemstu líka fótgangandi á flesta helstu staðina.

Hvenær er best að ferðast til Marrakess?

Það má búast við heitum og sólríkum dögum allan ársins hring í Marrakess, þótt maður þurfi oftast að hafa peysu við höndina á kvöldin yfir háveturinn frá desember til febrúar. Á haustin og vorin er oftast sólríkt á daginn og hlýtt á kvöldin en á miðju sumri, frá júní til september, er jafnan mjög heitt í borginni. Þá er líka eftirspurn eftir hótelum í Marrakess hvað mest en þar að auki er mikið af ferðafólki á svæðinu yfir páska og jól.

Hverjir eru áhugaverðustu staðirnir að sjá í Marrakess?

Þeir sem heimsækja borgina nefna flestir Medína, gömlu borgina sem er umkringd 20 km virkisvegg. Þar fyrir innan er einstök upplifun að rölta um þröng strætin í skugga frá sólinni á heitasta tíma dagsins og taka góð stopp á litlu kaffihúsunum sem þar eru á hverju strái. Í hjarta Medína er svo Djema El-Fna markaðstorgið þar sem ógrynni götulistamanna – loftfimleikafólk, tónlistarfólk, snákatemjarar og þar fram eftir götunum - leika listir sínar á hverjum degi. Einnig er áhugavert að heimsækja Koutabia-moskuna, sem var byggð á 12. öld og skartar 70 metra bænaturni sem sendir út bænakall fimm sinnum á dag.

Hvað er best að borða í Marrakess?

Þegar sólin sest og kveikt er á luktunum breytist Djemaa El-Fna torgið í stóran matarmarkað undir berum himni þar sem götusalar í tugatali bjóða marokkóskt sælkerafæði á borð við nýsteiktan fisk, sterkar merguez-pylsur og nýbökuð flatbrauð. Í útjaðri torgsins og á nærliggjandi götum eru hefðbundnari veitingastaðir þar sem hægt er að snæða marokkóska tagine-rétti, en það eru pottréttir með fiski, lambi eða kjúklingi, bornir fram með kúskús. Ferðamenn ættu líka að hafa augun opin fyrir frönskum bakaríum, sem hafa haldið velli síðan á nýlendudögunum og bjóða upp á úrvals bakkelsi að hætti franskra.

Hvað er best að gera í Marrakess?

Við mælum með heimsókn í Jardin Majorelle grasagarðinn, sem var upprunalega opnaður árið 1924. Hann er hannaður í marokkóskum stíl og er draumi líkast að ganga um hann og virða fyrir sér lækina, tjarnirnar og pálmatrén auk þess að líta við í Berbére-safninu, sem er í glæsilegu húsi í Art Deco-stíl og hýsir úrval afrískra Berber-listmuna. Það er einnig ógleymanleg lífsreynsla að fara í ferð með leiðsögumanni á kameldýrum um sandöldurnar fyrir utan borgina og virða fyrir sér stórfenglega fjallasýn Atlas-fjallanna. Einnig er hægt að fara í ferðir um sömu slóðir á fjórhjólum og loftbelgjum. Svo er ekki úr vegi að slaka á í marokkósku gufubaði í Hammam Dar el-Bacha heilsulindinni.

Sniðugar staðreyndir um Marrakess

Marrakess er oft kölluð borgin rauða vegna sandsteinsins sem er víða notaður sem byggingarefni húsa í borginni. Majorelle-garðurinn var því miður í niðurníðslu þar til tískutröllið Yves Saint Laurent keypti hann árið 1980 og endurbætti þannig að garðurinn náði aftur fyrri glæsileika. Í seinni heimsstyrjöldinni hittust þeir Winston Churchill og Franklin D. Roosevelt í Casablanca. Churchill hvatti Roosevelt til að heimsækja Marrakess og sagði „Þú getur ekki komið alla leið til Norður-Afríku án þess að sjá Marrakess.“ Svo tóku þeir kumpánar sér frí frá hernaðarbröltinu til að heimsækja borgina.

Hvaða almenningssamgöngur eru í Marrakess?

Það er strætisvagnaþjónusta í borginni, en tímasetningar geta verið frekar óáreiðanlegar. Auðvelt er hins vegar að finna smáleigubílana, petit taxi. Þeir eru með gjaldmæla sem eru þó ekki alltaf notaðir, þannig að það getur verið skynsamlegt að koma sér saman um verð áður en haldið er af stað. Bæði er hægt að taka hefðbundna bíla og smáleigubíla frá flugvellinum til hótela í Marrakess. Svo er einnig upplifun að fara um í calèche-hestvögnum.