Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Cancun

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar á flestum herbergjum
  • Ókeypis afbókun á flestum herbergjum
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Cancun

Nautnaseggir og sóldýrkendur hafa löngum fjölmennt hvaðanæva að úr heiminum á Cancun. Enda ekki nema von, því hitabeltisloftslagið, mjúkar og hvítar sandstrendurnar, fyrsta flokks verslanir og óviðjafnanlegt næturlífið skapa blöndu sem hljómar ómótstæðilega í eyrum milljóna ferðalanga ár hvert. Veðrið er upp á sitt besta frá desember til apríl, sem er fullkominn tími fyrir þá sem vilja flýja veturinn á norðurhveli Jarðar. Þótt Cancun hafi ákveðið orð á sér fyrir fjörugt og villt næturlíf er svæðið engu að síður líka frábær áfangastaður fyrir fjölskyldur, sem geta valið úr úrvali sundlaugagarða, sædýrasafna og frumskógarferða sem höfða til barna á öllum aldri.

Áhugavert að sjá í Cancun

Cancun er paradís þeirra sem vilja versla á ferðalaginu. Fyrsti áfangastaður þeirra er án efa La Isla Shopping Village, glansandi verslunarmiðstöð sem hýsir yfir 150 verslanir sem eru aðskildar með síkjum sem minna helst á Feneyjar. Og ekki nóg með það, því þar má einnig finna skemmtilegt gagnvirkt sædýrasafn. Ef þú vilt forðast mesta ferðamannaflauminn mælum við með að fara með heimafólkinu á Playa Tortugas. Það er grófgerð en falleg strönd þar sem finna má m.a. götusala sem selja unaðslega ferska ávexti og opin kaffihús þar sem hægt er að svala þorstanum með frískandi kokkteil á meðan sólarlagið málar himininn rauðan. Sennilega eru El Rey-rústirnar eitt óvæntasta kennileitið á hinu ofur-nútímalega hótelsvæði í Cancun. Í El Rey má virða fyrir sér hvorki fleiri né færri en 47 dulmögnuð Maja-mannvirki auk þess sem óteljandi gæfar græneðlur spóka sig þar í makindum og njóta þess að láta ferðafólkið mata sig á allskyns góðgæti. Rétt fyrir utan ströndina er svo Mujeres-eyja, þar sem hægt er að synda með höfrungum í kristaltærum hitabeltissjónum, sem er svo sannarlega lífsreynsla sem maður býr að alla ævi. Á Mujeres-eyju má líka finna Playa del Norte ströndina, sem er sennilega sú fallegasta á öllu svæðinu.

Hótel í Cancun

Eins og við er að búast býður þessi heimsfræga strandborg upp á hótel í öllum verðflokkum. Meðfram ströndinni standa heimsþekkt 5-stjörnu hótel sem ganga svo langt í lúxusnum að maður trúir ekki eigin augum. Þau skarta ríkulega búnum herbergjum með djúpum baðkerum og stórfenglegu útsýni yfir ströndina, heilsulindum með öllu tilheyrandi, líkamsræktarstöðvum í heimsmælikvarða og háklassa veitingastöðum þar sem hægt er að snæða á veröndinni í skugga voldugra pálmatrjáa. En ef þú býrð ekki svo vel að eiga alveg botnlaust veski og vilt finna ódýrari hótel í Cancun geturðu líka fundið fjölbreytt úrval hagkvæmari gistikosta. Hótelin í lægri verðbilunum hafa líka upp á ýmislegt að bjóða og t.a.m. er ekki óalgengt að þau séu með sundlaug, ókeypis þráðlaust net, snyrtivörur á herbergjum og kapalsjónvarp.

Hvar er gott að gista í Cancun?

Þeir sem vilja taka þátt í næturlífinu af fullum krafti ættu að hafa sínar höfuðstöðvar á hótelsvæðinu (Hotel Zone). Á því svæði eru allir bestu barirnir og næturklúbbarnir á Cancun, en þeir síðarnefndu laða reglulega til sín suma af heimsins bestu plötusnúðum. Þar eru líka fjölbreyttar verslunarmiðstöðvar, hágæða veitingastaðir, rokk- og jazztónleikastaðir og kabarett-leikhús í Las Vegas-stíl. Í miðbæ Cancun er úrval ódýrra hótela en jafnframt góðir samgöngumöguleikar, þannig að það hentar vel til að kynnast öllu því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Skammt frá meginlandinu er svo Mujeres-eyja (Isla Mujeres), sem er frábær kostur fyrir þá sem vilja meiri ró og næði. Þegar þangað er komið jafnast fátt á við að leita uppi góðan stað á einni af mörgum stórfenglegum ströndum eyjunnar og gæða sér á úrvals sjávarfangi á meðan sjórinn gælir við sandinn í flæðarmálinu.

Hvernig er best að komast til Cancun?

Cancun alþjóðaflugvöllurinn er aðaltengipunkturinn við umheiminn, en þangað kemur mikill fjöldi flugvéla dag hvern hvaðanæva að úr heiminum. Flugvöllurinn er eingöngu 10 km frá hótelsvæðinu í Cancun og 16 km frá miðbænum. Bílaleigur má finna á flugvellinum auk þess sem fjöldi fyrirtækja býður upp á rútuferðir í miðbæinn. Ferðalangar skulu vara sig sölumönnum sem bjóða ókeypis flutning um leið og komið er í gegnum tollinn, því markmið þeirra er líkast til að selja íbúðagistingu eða skoðunarferðir á yfirverði.

Hvenær er best að ferðast til Cancun?

Hitabeltisloftslag einkennir Cancun allt árið, sem þýðir að raki er mikill á sumrin og tíðir stormar sem ná hámarki í september. Á þeim tíma er einmitt oft hægt að finna mjög hagstæð tilboð á hótelum í Cancun. Frá síðari hluta desember fram í apríl skartar Cancun hins vegar heiðbláum himni og glampandi sól, sem er fullkomið fyrir þá sem vilja sitja á sundlaugarbakkanum með kokkteil eða busla í sjónum á ströndinni. Ef þú vilt hafa það rólegt á ferðalaginu er gott að hafa í huga að Cancun er vinsæll áfangastaður háskólanema í vorfríi frá miðjum mars fram í aprílbyrjun með tilheyrandi fjöri og líflegu næturlífi og því kannski skynsamlegt að velja annað tímabil fyrir fríið.

Hvað er spennandi að heimsækja í Cancun?

Þótt glampandi hótelin einkenni sjóndeildarhringinn á strönd Cancun má enn sjá leifar fyrri tíma á svæðinu. Á hótelsvæðinu má t.a.m. ekki láta Majarústirnar El Rey fram hjá sér fara, en það er 600 ára gamalt steintorg með tilkomumiklum súlum á víð og dreif. Listaunnendur ættu að kynna sér hið sérkennilega og skemmtilega Cancun Underwater Museum, sem er safn súrrealískra höggmynda sem sökkt hefur verið í sjóinn og hægt er að skoða með því að fara í snorkl-ferð. Ekki má heldur gleyma að heimsækja helstu strönd Cancun, Playa Delfines, sem er víðfeðm breiða af fullkomnum sólbaðssandi við blágræna ströndina sem er vinsæl hjá bæði sundfólki, siglingafólki og sóldýrkendum.

Hvað og hvar er best að borða í Cancun?

Alls staðar á hótelsvæðinu, þar sem finna má blöndu af bæði lúxushótelum og ódýrum hótelum, standa þægilegir barir og veitingastaðir sem framreiða úrval klassískra mexíkóskra rétta auk hefðbundinna evrópskra og bandarískra veitingastaða sem bjóða pizzur, pasta, steikur, sjávarrétti og allt þar á milli. Ef þú vilt kynna þér matargerðarlist heimamanna, sem oft er kennd við Yucatan-skagann, er hins vegar best að fara í miðbæinn og skoða bændamarkaðinn Mercado 23, þar sem götusalar selja snarkandi heitar maístortillur og steiktan fisk vafinn í bananalauf.

Hvað er gaman að gera í Cancun?

Þeir sem vilja kynna sér sögu staðarins ættu að fara í heimsókn í bæinn Tulum, sem er í nágrenninu, en þar má finna stórar rústir forns Maja-virkis á kletti sem vísar að hvítri ströndinni. Enn mikilfenglegra er að fara í dagsferð til rústa hinnar fornu Maja-borgar Chichen Itza þar sem óviðjafnanlegar menningarleifar eru á hverju strái; molnandi stjörnuathugunarstöðvar, vel varðveitt píramítalaga hof og allt þar á milli. Í Cancun sjálfri er vel þess virði að heimsækja Parque Las Palpas, sem er fjölskylduvænn almenningsgarður með skemmtilegu úrvali af götusölum með bæði mat og aðrar vörur auk þess sem oft eru haldnir þar tónleikar um helgar.

Áhugaverðar staðreyndir um Cancun

Skemmtileg staðreynd um Cancun er falin í nafni borgarinnar. „Cancun“ er ættað úr Majamáli og má gróflega þýða sem „snákahreiður“. Áður en borgin fékk nafnið Cancun var hún kölluð Ekab, sem þýðir „svört jörð“ og er í athyglisverðu ósamræmi við allar hvítu strendurnar sem einkenna borgina. Og talandi um hvítu strendurnar, þá er þessi bjarti litur tilkominn vegna þess að sandurinn er að mestu leyti gerður úr krömdum kóral sem hafið hefur pússað í tímans rás. Annað einkenni þessa kóralsands er að hann er ávallt kaldur viðkomu allt árið um kring.

Hvers konar almenningssamgöngur eru í Cancun?

Það er auðvelt að ferðast um Cancun, þar sem borgin skiptist í 2 einkennandi svæði. Annars vegar er miðbærinn á meginlandinu og hins vegar liggur hótelsvæðið á landræmu sem aðskilur sjóinn og Nichupte-lónið. Ódýrir strætisvagnar ganga reglulega bæði um þessi svæði og milli þeirra. Einnig er auðvelt að nota leigubíla til að komast leiðar sinnar, en þá er auðvelt að finna víðast hvar í borginni. Gott er þó að hafa í huga að fargjaldið er jafnan talsvert hærra innan hótelsvæðisins.

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði