Fara í aðalefni.

Bestu hótelin í Nice

Finndu gististað

  • Borgaðu núna eða síðar fyrir flest herbergi
  • Ókeypis afbókun fyrir flest herbergi
  • Verðvernd

Finndu rétta hótelið í Nice

Nice er margslungin og spennandi borg með úrval áhugaverðra staða og fjölbreyttra sérkenna sem renna saman í einstakan suðupott menningar og umhverfis. Landslagið og borgarstemningin tekur stakkaskiptum þegar farið er frá þröngum götunum og barrokk-arkitektúrnum í Vieux Nice yfir á hafnarsvæðið þar sem Promenade des Anglais-gatan dregur gestina að ströndinni. Breið og þægileg göngugata gefur bæði skokkurum og ferðafólki gott tækifæri til að njóta umhverfisins og útsýnisins yfir sjóinn. Nice er í senn fjölmenningarleg hafnarborg og höfuðborg sælkera auk þess sem yfir vötnum svífur glamúrinn sem einkennir frönsku rívíeruna þannig að enginn gestur kemur þaðan ósnortinn af þessari mögnuðu borg.

Áhugavert að sjá í Nice

Það kennileiti Nice sem hefur sennilega hvað mest aðdráttarafl er Promenade des Anglais, þar sem kaffihús, verslanir, sölustandar og götulistamenn keppa um athygli gesta og gangandi með fjölbreyttum – svolítið yfirverðlögðum – varningi af ýmsu tagi. Sögu götunnar má rekja allt aftur til 18. aldar, en frá upphafi hefur hún verið hinn fullkomni vettvangur til að virða fyrir sér mannlífið en ekki síður himinblátt Miðjarðarhafið og fallega ströndina. Það jafnast fátt á við að taka góðan göngutúr meðfram götunni – svo lengi sem maður passar sig á að ganga ekki í veg fyrir hjólreiðafólk sem brunar eftir frekar illa merktum hjólastíg götunnar. Í febrúar ár hvert verður gatan svo enn líflegri en venjulega þegar Karnival borgarinnar er haldið þar. Torgið Place Messina, í gamla hluta bæjarins, dregur einnig til sín götulistafólk og dansara auk þess sem þar eru garðar, stórfengleg stytta af Apolló og fjöldi bara og veitingastaða. Gestir ættu heldur ekki að láta Nice-dómkirkjuna fram hjá sér fara, en hún var byggð á 17. öld og skartar 10 kapellum og flísalagðri hjálmhvelfingu í Genóva-stíl.

Hótel í Nice

Eins og búast má við af Rívíerunni skortir ekki lúxusinn og allsnægtirnar á svæðinu. Fjöldi hótela í Nice býður hágæða fimm stjörnu lúxusgistingu þar sem þú færð allt til alls á hótelherbergjunum, flatskjái, þráðlaust internet dúnmjúk rúm og fyrsta flokks þjónustu auk útsýnis yfir sjóinn auk veitingastaða og kokteilbara á staðnum. En það eru ekki bara fimm stjörnu hótel í Nice, heldur líka hótel í miðverðflokki sem stíla inn á þjónustu við fjölskyldur eða viðskiptaferðalanga. Staðsetning og útsýni skipta miklu þegar kemur að gistingu í Nice, þannig að þú getur búist við að þurfa að borga talsvert meira ef þú vilt geta horft yfir ströndina frá svölum hótelherbergisins.

Hvar er gott að gista í Nice?

Þeir sem fara til Nice eru í flestum tilvikum að leita að sjávarloftinu, þannig að margir kjósa að gista í göngufæri frá steinvöluströndinni við Promenade des Anglais. Þaðan er ekki bara stutt í sólbaðið á ströndinni, heldur líka mannlífið og veitingastaðina – sem vissulega eru í dýrari kantinum. Gamli bærinn, Vieux Nice, einkennist af litríkum og blómlegum 16. aldar götum þar sem antíkmarkaðir eru á hverju strái. Örlítið utar er hafnarbærinn Saint-Laurent-du-Var, sem er nokkurs konar glæsiútgáfa af Promenade des Anglais.

Hvernig er best að komast til Nice?

Til Nice koma flestir í gegnum Cote d'Azur flugvöllinn, sem er um það bil 6 km frá miðbænum. Engin bein lestarþjónusta er frá flugvellinum til Nice, en rútur keyra reglulega á 20 mínútna fresti á helstu álagstímum. Nice Ville lestarstöðin tengir borgina og ströndina við marga aðra strandbæi á svæðinu og fara lestir reglulega til borga á borð við Cannes og Mónakó. Og talandi um Mónakó, þá er hægt að taka 7 mínútna þyrluflug frá Nice til þessarar höfuðborgar spilavítanna.

Hvenær er best að ferðast til Nice?

Sumrin eru fullkominn tími til að heimsækja hina hrífandi Rívíeru, enda er enginn árstími betri til að sleikja sólina á ströndinni við glitrandi Miðjarðarhafið eða slappa af á einu hinna óteljandi útikaffihúsa á svæðinu. En ef þú vilt kannski svolítið rólegra frí gætu tímabilin á undan og eftir aðalvertíðinni – snemma vors og síðla hausts – hentað betur. Meira að segja veturinn hefur ýmsa kosti í Nice – til dæmis er hið stórfenglega Nice-karnival haldið í febrúar, þar sem litríkir risavagnar og búningaklæddir þátttakendur setja allt á annan endann.

Hvað er nauðsynlegt að sjá í Nice?

Hvar sem hótelið þitt er í Nice þá er hvergi langt í aðalaðdráttaraflið, Promenade des Anglais. Gatan heitir eftir enskum ferðalöngum sem fyrstir gerðu Nice fræga sem sumardvalarstað og þar er endalaust hægt að ganga, hjóla eða sitja á einum af hinum frægu bláu stólum og njóta mannlífsins og útsýnisins yfir ströndina. Það er skemmtilegt dagsferð að heimsækja stjörnuathugunarstöðina í Nice, sem er frá 19. öld, og eins má verja góðum tíma í að dást að dómkirkju borgarinnar.

Hvað og hvar er best að borða í Nice?

Eins og búast má við af einni af helstu ferðamannaborgum Evrópu býður Nice upp á úrval matar þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er hefðbundinn brasserie-matur eða framandi fusion-matargerð. Víða má finna veitingastaði sem framreiða klassíska rétti á borð við kjötkássu og ratatouille, sem skolað er niður með rósavíni eins og lög gera ráð fyrir. Fínustu veitingastaðirnir eru flestir á gömlu og glæsilegu hótelunum þar sem haukfránir gestir koma oft auga á frægðar- og kóngafólk, en ef ætlunin er að fara á örlítið alþýðlegri veitingastaði er oft gott að leita upp í Vieux Nice – gamla hverfið.

Hvað er skemmtilegast að gera í Nice?

Þessi myndræni og sólbakaði hluti Frakklands hefur löngum veitt stórfenglegu listafólki innblástur. Einn þeirra var Matisse og er hægt að sjá nokkur af hans helstu verkum í Musée Matisse, þar sem sýnt er yfirlit af verkum hans frá upphafi að síðustu verkum. Málverk annars 20. aldar risa í listasögunni má svo sjá í Musée Marc Chagall, þar sem m.a. má finna nokkur af trúarlegu verkunum sem þykja mikilvægur þáttur í ferli hans. Eftir safnaheimsóknirnar er svo um að gera að taka göngu um hinar þröngu götur Vieux Nice, sem listamennirnir sjálfir gengu um á sínum tíma, og kanna það sem verslanirnar og barirnir hafa upp á að bjóða.

Áhugaverðar staðreyndir um Nice

Athyglisverð persóna í litríkri sögu Nice var alþýðuhetjan Catherine Ségurane, þvottakona sem ku hafa hrint árás tyrknesks innrásarhers á 16. öld með því að sýna þeim á sér beran afturendann. Enn frægari en Catherine er Hotel Negresco, mikilfenglegur gististaður sem þekktur var fyrir að hýsa gesti á borð við Picasso, Frank Sinatra og Richard Burton – sem skyldi ómetanlega hálsfesti eftir á barnum eftir næturlanga drykkju eins og frægt varð. Hefurðu einhvern tímann velt fyrir þér hvað „Ratatouille“ þýðir? Þessi fræga grænmetiskássa fær nafn sitt frá sögninni „touiller“, sem þýðir að „hræra upp“.

Hvers konar almenningssamgöngur eru í Nice?

Það er einfalt að komast um í Nice. Fyrir það fyrsta er best að skoða svæðið fótgangandi, þar sem það er unaðslegt að ganga um friðsælar göturnar auk þess sem flest helstu kennileitin eru á tiltölulega litlu svæði í miðbænum. Ef þú þarft að komast eitthvað í snatri er hins vegar hægt að stökkva upp í einhvern af strætisvögnum bæjarins eða nota hinar nútímalegu léttlestir sem ganga um svæðið.

Sparaðu meira með hulduverði

Sparaðu samstundis með hulduverði